PRINSESSUVIKAN AÐ LÍÐA.

Sæl veriði.

Betra er seint en aldrei,  hér koma nokkrar myndir frá því í vikunni. Það er búið að vera einhver leiðindi í tengingunni núna í nokkra daga og ég ekki getað komið inn neinu. Sabrína átti afmæli sl. sunnudag og þann  dag fór hún í sveitina og kynntist merinni Plicku sem að pabbi hennar keypti handa henni í afmælisgjöf (eins gott að hún bað ekki um Ferrarri, pabbi hennar hefði örugglega keypt hann á lánum handa litlu stelpunni sinniWink !!).  Þetta er semsagt 1 árs ótamin meri og þá vantar bara að heimasætan góða læri að sitja hest.

Sabrína og Plicka.

Hérna er brunnurinn sem var gerður nýlega, engin bomba þannig að handaflið verður að duga í bili.  Það kemur prýðilegt  vatn úr honum, bara dálítill sandur í því.

Nýi vatnsbrunnurinn,  handalflið verður að duga í bili.

Svo var haldið upp á afmælið á þriðjudaginn með sundlaugarpartíi og öllum bekknum boðið. Góð mæting, af 32 börnum mættu 25.

sundlaugararparti   Eftir 2 tíma í sundi var borðið tekið með áhlaupi.

Magnús að safna saman boltum.

Læt þetta duga í bili. Vona að skráin verði ekki og þung með svona mörgum myndum.

Og elsku mamma mín innilega til hamingju með daginn, við hringjum í kvöld. 

Heyrumst.

 

 


HELGIN OKKAR

Komiði sæl.

Höfum haft það gott um helgina. 

Giovanni er enn í sveitinni, kom heim á föstudagskvöld, henti fötum í þvottavélina og var svo farin á hádegi á laugardag.  Sýnist á öllu að  hann sé að fíla þetta í tætlur. Nánast búið að sá hrísgrjónunum, en traktorinn hefur eitthvað verið til ama sem hefur seinkað öllum plönum.  Næst á dagskrá er væntanlega að sá í síðustu túnin og sinna nautgripunum.  Myndir af þessu í næstu myndasyrpu.

Minntist á það við krakkana í framhjáhlaupi á laugardagskvöldið að kannski væri sniðugt að pumpa í dekkin á hjólunum ef okkur dytti í hug að fara að í hjólatúr daginn eftir. Hugsaði svo ekki meira um það.  Það gerðu strákarnir hins vegar, því að sunnudagsmorgun var ég vakin 06.15 þar sem þeir stóðu báður klæddir við rúmið í skóm og með nestistösku og spurðu í kór hvort ég væri ekki að koma?. Þeir eiga vel að merkja fullt í fangi með að vakna kl. 06.30 á virkum dögum til að fara í skólann.  Bað þá að hafa sig hæga amk. klukkutíma í viðbót þar sem systir þeirra væri sofandi.  Þeir tóku ábendingunni passlega alvarlega fóru inn til hennar og skömmu seinna kom hún skjögrandi fram og sagði að það væri ekki flóarfriður fyrir þessum ormum.  Og klukkan 07.45 vorum við kominn út að hjóla.  Sjá myndir.

 

Í garðinum hjá vinafólki.    Úr hjólatúr

 

Í  hjólatúr.    Magnús að læra heima.

Þegar við komum heim 3 tímum síðar voru sumir frekar framlágir við heimalærdóminn.

Einn af þessum óteljandi sveitavegum, ca. 1500 að heiman.    Húsið okkar, .. óvenjuhreint reyndar..

Á milli hússins okkar og þessa sveitavegar eru ca. 1500m.  Það er virkilega gaman að hjóla á þessum slóðum þar sem allt er fullt að dýralífi s.s. páfagaukum, eðlum og litlum slöngum, sáum engar í þetta sinn.  Var hins vegar næstum búin að hjóla yfir myndarlega eðlu og mátti vart á milli sjá hvorri okkar brá meira.  Var næstum dottin af hjólinu og krakkarnir hlógu mikið. 

Af gefnu tilefni langar mig að segja ykkur öllum að ég er búin að gefast upp á Facebook síðunni og hún á mér.  Kem ekki til með að halda henni við.  Á í eilífum vandræðum með að logga mig inn og síðan þekkir aldrei aftur leyniorðið.  Ég veit að árinni kennir illur ræðari og sjálfsagt er ég að gera eitthvað vitlaust.  Ég bara nenni ekki að setja mig inn í  hvar vitleysan liggur, ég eyði alveg nógum tíma á þessari síðu svo ég fari nú ekki að halda úti annari líka.

Bið að heilsa öllum.


2 HESTÖFL

Komiði sæl.

Ég bara varð að sýna ykkur þessa mynd sem að ég tók í morgun.  Nágranninn var að láta klippa trén hjá sér og garðyrkjumaðurinn var með þetta farartæki til að fjarlægja afklippurnar.  Alls ekki óalgeng sjón hér um slóðir. Kannski eitthvað sem Landinn ætti að hugsa út í þrengingunum. Afturhvarf til upprunalega hestaflsins.  Ágætis svar við mögulegum bensínskorti. 

DSC00592

Heyrumst.


Myndir frá sunnudeginum 12. Október.

Komiði sæl.

Svona leið sunnudagurinn okkar.  Vorum bara heima og kepptumst við að gera ekki neitt.

í sundlauginni.         Sá gamli í hengirúminu, sem var afmælisgjöfin

Sundlaugin góða.                       Sá gamli í nýja hengirúminu.

Þór að hvíla sig eftir steikina.       Hjóla

Þór liggur á meltingunni.             Hjólaþvottadagur. 

Heyrumst.

 

 


SITT LÍTIÐ AF HVERJU.

Komið þið sæl.

Það hefur verið mjög sérkennileg upplifun sl. viku að sitja hér og lesa um kröggur bankanna sem hafa farið illilega yfir strikið í erlendum lántökum til að fjármagna flottræflishátt sinn og annara, heima og heiman. T.d hefði Bjarni frændi alveg geta sagt þeim þetta fyrir mörgum árum, en kannski var bara þægilegra að sjá ekki neitt og heyra ekki neitt. Nota bara strútataktík á  þetta.  En nú er þetta búið og gert.

Öll heimspressan, skandinavísku, bresku, spænsku, suðuramerísku og  bandarísku (kannski hvað síst!) blöðin hafa öll flutt fréttir af þessu ástandi á Klakanum. Að  sitja HÉR í 34 stiga hita, þar sem ruslabíllinn hefur ekki komið í heila viku vegna skorts á dísel og horfa á grafíkin í CNN(espanol) sem sýna kúrfur íslensku bankanna og gengisvísitölunnar renna beint niður til Heljar (má ekki vera of orðljót!!) er bara hreinlega surreallísk upplifun. Nenni reyndar ekki að ræða þessi bankamál meira, það væri hreinlega að bera í bakkafullann lækinn.

Hef haft í nógu að snúast sl. viku fyrir utan það að leita að bensíni á bílinn sem eitt og sér er full vinna. þannig er málið með vexti að faðir svila míns liggur fyrir dauðanum, gerir það með sömu friðsæld og reisn og hann hefur lifað lífinu.  Er með endastig lungnfibrosu og hjá honum er full vinna að draga andann, getur varla talað og á í stökustu vandræðum með að borða.  Þarf hjálp við allar athafnir daglegs lífs.  Eiginkonan sér um ALLA umönnun en ég fer til hennar á morgnanna þegar krakkarnir eru í skólanum og reyni að hjálpa henni með það sem að til fellur.  Hann vill deyja heima og þar að auki er ekkert meira fyrir hann að gera.   Hjúkrunarheimili er ekki á meðal þeirra möguleika sem eru í boði og það þykir sjálfsagt að hver stórfjölskylda sjái um sín gamalmenni, allt annað er skömm og hneisa.  Þetta eru yndisleg fullorðin hjón og mér mikil ánægja að vera í návist þeirra.  Þau eru búin að vera gift í 55 ár og æðruleysið yfir aðstæðunum er fullkomið, friður og ró yfir öllu. Svo sér tengdadóttirin um innkaupin og einn sonurinn sefur hjá þeim á næturna.

Af búskapnum er allt meinhægt að frétta.  Búið af skrapa saman þeim dísellítrum  sem nauðsynlegir eru til að sá 60 hekturum af hrísgrjónum, meiningin er víst að pota þeim niður í næstu viku. Búið að kaupa 10 mjólkurkýr sem allar eru með kálfa.  Sem sé 20 beljur á beit sem vonandi eru ekki hrísgjónaætur.  Tæknin við að mjólka verður ekki upp á marga fiska til að byrja með, handaflið verður að duga þangað til hlutirnir er farnir að snúast.

Set inn hérna (vonandi!!) nokkrar myndir sem eru teknar í vikunni.

DSC00573DSC00567DSC00574

Heyrumst.

 


FYRIR BIRNU MÍNA.

Komið sæl.

Bara nákvæmlega ekkert í fréttum, hvunndagurinn alveg að drepa mann og hitinn líka. Kannski bara einhverskonar spennufall eftir allann æsinginn á fyrri vikum. Sem sagt, engar fréttir eru góður fréttir. 

2647396064_ac28463545_mÞessar myndir hér að neðan eru sérstaklega tileinkaðar Birnu systur minni sem er orðin svo leið á að sjá bara "hús og svoleiðis" á þessari síðu. Gettu nú bara hvað þetta er... enginn hús í mörg hundruð km. radíus og ekkert "svoleiðis" heldur.   Njóttu vel.

Uyuni saltaudnin

Þessar myndir eru stolnar af flickr síðunni hans Sigurjóns Guðjónssonar frænda míns,  ATH.. allur réttur áskilinn.

 

Heyrumst.   


HÁLFLEIKUR

Komiði sæl. 

Mér var afskaplega heitt í hamsi í síðustu færslu eins og kannski skein í gengum skrifin.  En þar sem ég vil ekki vera ekki eins og æsifréttamennirnir sem skrifa bara þegar þeir hafa frá einhverju krassandi að segja þá langar mig að segja ykkur að Göngunni sem var efni síðustu færslu hefur verið frestað. Búið er að gefa út tilkynningu um að henni verði frestað til 15. okt.

Verður líklega/vonandi leyst upp og fólk sent til síns heima enda uppskerutími hjá mörgum.  Þetta var skv. nokkuð áræðanlegum heimildum gert að skipun forsetans sjálfs, þess sama og hafði fyrir nokkrum dögum harðneitað að eiga nokkurn hlut að máli varðandi þessa Göngu. 

Ástæðan?  Uppi eru nokkrar kenningar þar að lútnandi.  Menn hafa trúlega umfram allt gert sér grein fyrir að þarna gæti ástandi farið endanlega út böndunum eins og gefur að skilja. Í annan stað voru  skipuleggjendur göngumanna að gera ráð fyrir stuðningi úr verkamannahverfum borgarinnar, sem þeir svo fengu ekki.  Verklýðsforkólfar á svæðinu, þvert á hugmyndir göngumanna, hvöttu fólk til að "verjast með kjafti og klóm" ef til gripdeilda kæmi.  

Chochis2

Öfgaaðstæður að þessu tagi væru líka afskaplega slæmar afspurnar, sérstaklega núna þegar Aðalþing SÞ er samankomið í NY. Þetta er nefninlega umfram allt sálfræðistríð.   En nú getur fólk semsagt andað léttar í bili og það eru að sjálfsögðu góðar fréttir.

Giovanni fór í  að heiman strax í morgun áleiðis í sveitina.  Ætlaði fyrst að þræða nokkrar nálægar bensínstöðvar til að reyna að finna disel.  Hann er með eina tunnu á pallinum  á Hi-Lux-num sem að hann nær stundum að fylla þó ekki sé nema í dropatali.  Krakkarnir komnir í skólann á ný og hlutirnir að komast í daglegt horf.

Heyrumst.


FRIÐARGANGAN ÓGURLEGA

Sæl veriði.

Þetta er myndin á forsíðu blaða hér í dag. 

 belicos2

Þetta er semsagt hin svokallaða friðsamlega kröfuganga hinna 20 þús. sem ætluðu að taka Santa Cruz með trompi í gær en ekkert varð úr.  Nú hefur þetta fólk hins vegar boðað komu sína á morgun (en þá er frídagur hér!).

Fréttir berast af því að þessi lýður fari um með eldi, ránum og ofbeldi og vei þeim sem standa í vegi þeirra. Þeir sem það gera eiga, í fyrsta lagi yfir höfði sér ofbeldi og í öðru lagi að verða reknir úr embættum sínum fyrir að skipta sér af aðgerðum sem eru stjórnvöldum fullkomlega þóknanlegar.  Þetta fengu nokkrir aðilar frá lögregluyfirvöldum að reyna í gær,  þegar þeir reyndu að skipta sér af meintum vopna- og sveðjuburði í hópnum. Sl. daga 2 daga hafa þó aðeins sést barefli á myndum.  Menn hafa trúlega áttað sig á því að annað gæti haft slæm áhrif á almenningsálitið.

Nú er það þó komið á hreint að opinber ætlun þessa fólk ku vera að þrýsta á um samkomulag í þessu viðræðum sem nú fara fram og virðast vera komnar í ögstræti. Það vill sem sagt að héraðstjórarnir skrifi undur nánast óútfyllta ávísun stjórnvöldum til handa,  ef ekki með góðu  þá með illu. Þetta er einhver skilgreining á samningaviðræðum sem hefur alveg farið fram hjá mér til þessa. 

En hin óopinbera áætlum er ekki síður áhugaverð en hin. Flestir "með viti" eru sammála um að málið snúist þó aðallega um að ögra það mikið og það lengi að fólk rísi upp á afturfæturnar og verji sig.  Ef slíkt ástand kemur um er það fullkominn afsökun til að taka héraðstjórann höndum (eins og gert var í Pando þann 11. sept. sl.), lýsa yfir herlögum og setja nýjan héraðsstjóra sem er stjórnvöldum þóknanlegur.  Sá núverandi (Rubén Costas) er nefninlega stærsta steinvalan í spariskóm forsetans í augnabilkinu. Menn skulu þó hafa það alveg á hreinu að hann er með um 86% af íbúum í Santa Cruz héraði á bak við sig.  Í dag, bæði í gengum sjónvarp og útvarp hafa þekktir aðilar út þjóðlífinu verið  að biðja fólk um að sýna ró og þolinmæði og svara ekki hverskonar ögrunum beinum eða óbeinum, og helst ekkert vera að fara út að óþörfu. Við skulum nú bara sjá hvernig það fer hjá skapheitu fólki á ögurstundu, sem við skulum vona að ekki komi upp. 

Að sjálfsögðu hefur þetta fólk fullan rétt á að mótmæla friðsamlega í eigin landi  og það hafa margir bent á.  Hér eins og á flestum stöðum sem vilja falla undir siðmenntaðar þjóðir, er hins vegar bannað  að ganga um rænandi, berjandi og ruplandi með byssur, sveðjur og dínamít og þá gildir einu hvort hópurinn samanstendur af 12 eða 20 þúsund einstaklingum. 

Þessari staðreynd hefur hins vegar verið ofaukið  í umræðunni hér sl. daga.

Ég verð nú líka að koma því að að þetta borgaralega andóf geng stjórnvöldum er hætt að snúast eingöngu um deilumálin.  Í augnablikinu er fólki algjörlega ofboðið með öllum þessum alræðis- og einræðistilburðum sem verið er að sýna.  Á bak við svona stjórnarhætti þarf alveg gríðarlega magnaða áróðursmaskínu með persónunjósnum og öllu tilheyrandi.  Ég hef búið hér alls í 12 ár (með hléum) og man aldrei eftir að hafa séð annað eins.  Það kostaði miklar fórnir að koma hér á  vestrænu lýðræði árið 1982. Það muna allir sem orðnir er 35 ára eða eldri. Þess vegna er mörgum verulega heitt í hamsi.

Ég vil þó taka það skýrt fram að hér er allt me ró og spekt eins og er og vonandi kemur ekki til annars.  En þetta ástand veldur þó óumdeilanlega nokkurri spennu.  Þar var t.d. nokkuð sérstakt andrúmsloft á markaðinum í morgun, það var fólk að versla eins og löööng helgi væri framundan, ekki beint að hamstra en það var greinilegt að andrúmsloftið var ekki á við venjulegan þriðjudag.

Jæja, hætt í bili enda orðið ágætt af pennalatri manneskju að vera.

Heyrumst.


PÓSTHÓLF FYRIR MÖMMU MÍNA.

Komiði sæl. 

Það hefur lengi verið vandamál að koma til okkar pósti þar sem heimilsfangið hljómaði einhvern vegin svona (dálítið fært í stílinn en samt satt!):

Fjóla Björnsdóttir

Mauragötu 8,

6,5 km frá aðaltorginu beint í Norður. Bak við bensínstöð Alí gamla (sem reyndar er búin að selja hana stórri þjónustukeðja). Beygt til hægri við stóra mangótréð það sem trífætti hundurinn liggur þegar ekki rignir.

Santa Cruz, Bolivia.

Það liggur nú eiginlega í augum upp að pósturinn barst seint og illa.   Besta ráðið var að senda jólapakkana til tengdamömmu í La Paz (þar sem sumir hlutir eru þróaðri en hér, m.a. póstþjónusta) og biðja hana svo að koma pökkunum til okkar með DHL.

454705489_436d70ca4c_m

En nú hljómar adressan semsagt svona:

Fjóla Björnsdóttir

Casilla Postal 293

Correo Central.

Santa Cruz, Bolivia.

Mun einfaldara ekki satt.  Ég bind miklar vonir við þetta nýja Pósthólf nr. 293.  Og ég veit að það gerir elsku mamma mín líka.

Bið að heilsa.


MÁNUDAGUR TIL MÆÐU ??

Komiði sæl.

Af okkur er allt prýðilegt að frétta.  Fórum í hefð-bundinn sunnudagsbíltúr í dag sem þýðir náttúrlega að bensínið aftur orðið nokkuð aðgengilegt.  Keyptum okkur kjötbökur og fórum að bursla í einni af þessum ótal kristaltæru bergvatnsám sem eru hér bara nokkra km. fyrir utan borgina.  Gengum líka aðeins á gosbyrðirnar í geymslunni (80 lt. Munið þið?).  Þjáist því miður alltaf af minnisleysi þegar þarf að muna eftir myndavélinni, en það kemst kannski í lag þegar ég er búin að læra að koma myndunum af henni inn á vefinn. 

Af þessum blessuðu friðarviðræðum er ekki mikið að frétta heyrist mér,  eitthvað hefur þó miðað áfram og mér skilst að þeir sem þar eiga beinan hlut að máli ætli að gefa sér þessi viku í viðbót til að koma skikki á hlutinna. 

Hins vegar virðist það ekki ætla að stöðva róttækann arm stjórnarflokks Morales.  Ég heyrði nokkrar herskáar yfirlýsingar í aukafréttatíma í kvöld (venjulega eru engar fréttir á sunnudagskvöldum).  Þar sem staðhæft var að héraðstjórar "óþekku" fylkjana, þ.e.  Beni, Santa Cruz og Tarija hefðu greinilega engann áhuga á nokkrum sameiginlegum niðurstöðum.  Þess vegna ætla nokkrir hópar fólks sem eru vopnaðir bareflum og skotvopnum og eru staðsettir á 3 stöðum, norðan, sunnan og austan megin við borginna, samtals um 20 þús. manns segja þeir,  að marsera inn í borginna á morgunn og sýna tennurnar.   Þessar yfirlýsingar tekur fólk hér passlega alvarlega vegna þess að þetta eru mestallt málaliðar, fáfrótt og fátækt fólk sem er rekið áfram í hópum (eins og sauðir, því miður) og veit ekki betur.  Flestir meta það þannig að ef það verður ekki fyrir niðurlægingu eða ögrunum þá komi það til með að þreytast fljótt og halda sig til hlés.

2863943534_aa1072a84d

Það þarf ekki að taka það fram að allur kostnaður og skipulag varðandi þessar "félagslegu þrýstihópa", fæði, húsnæði, að koma fólki til og frá.... allt, allt er greitt beint úr ríkissjóði (hvaðan annarsstaðar??).  Og þetta að meðan hinar svokölluðu friðarviðræður fara fram.  Dæmið þið svo bara sjálf hver það er sem ekki vill sjá jákvæðar niðurstöður.   

Jæja við sjáum hvað setur, ég er satt að segja alveg róleg yfir þessi, finnst þetta svona merki um ákveðna örvæntingu.

P.S. Myndirnar hérna fyrir ofan eru frá markaði í Sucre, höfuðborg landsins.... NEI... La Paz er EKKI höfuðborg eins og margir halda, aðeins aðsetur þingsins.

Heyrumst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Fjóla Björnsdóttir

Höfundur

Fjóla Björnsdóttir
Fjóla Björnsdóttir

Fjóla Björnsdóttir. Læknir. Búsett í Bólivíu. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • 2011 Andrés og fótboltamót 040
  • 2011 Andrés og fótboltamót 041
  • 2011 Andrés og fótboltamót 031
  • 2011 Andrés og fótboltamót 029
  • 2011 Andrés og fótboltamót 020

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband