Færsluflokkur: Lífstíll

HELGIN OKKAR

Komiði sæl.

Höfum haft það gott um helgina. 

Giovanni er enn í sveitinni, kom heim á föstudagskvöld, henti fötum í þvottavélina og var svo farin á hádegi á laugardag.  Sýnist á öllu að  hann sé að fíla þetta í tætlur. Nánast búið að sá hrísgrjónunum, en traktorinn hefur eitthvað verið til ama sem hefur seinkað öllum plönum.  Næst á dagskrá er væntanlega að sá í síðustu túnin og sinna nautgripunum.  Myndir af þessu í næstu myndasyrpu.

Minntist á það við krakkana í framhjáhlaupi á laugardagskvöldið að kannski væri sniðugt að pumpa í dekkin á hjólunum ef okkur dytti í hug að fara að í hjólatúr daginn eftir. Hugsaði svo ekki meira um það.  Það gerðu strákarnir hins vegar, því að sunnudagsmorgun var ég vakin 06.15 þar sem þeir stóðu báður klæddir við rúmið í skóm og með nestistösku og spurðu í kór hvort ég væri ekki að koma?. Þeir eiga vel að merkja fullt í fangi með að vakna kl. 06.30 á virkum dögum til að fara í skólann.  Bað þá að hafa sig hæga amk. klukkutíma í viðbót þar sem systir þeirra væri sofandi.  Þeir tóku ábendingunni passlega alvarlega fóru inn til hennar og skömmu seinna kom hún skjögrandi fram og sagði að það væri ekki flóarfriður fyrir þessum ormum.  Og klukkan 07.45 vorum við kominn út að hjóla.  Sjá myndir.

 

Í garðinum hjá vinafólki.    Úr hjólatúr

 

Í  hjólatúr.    Magnús að læra heima.

Þegar við komum heim 3 tímum síðar voru sumir frekar framlágir við heimalærdóminn.

Einn af þessum óteljandi sveitavegum, ca. 1500 að heiman.    Húsið okkar, .. óvenjuhreint reyndar..

Á milli hússins okkar og þessa sveitavegar eru ca. 1500m.  Það er virkilega gaman að hjóla á þessum slóðum þar sem allt er fullt að dýralífi s.s. páfagaukum, eðlum og litlum slöngum, sáum engar í þetta sinn.  Var hins vegar næstum búin að hjóla yfir myndarlega eðlu og mátti vart á milli sjá hvorri okkar brá meira.  Var næstum dottin af hjólinu og krakkarnir hlógu mikið. 

Af gefnu tilefni langar mig að segja ykkur öllum að ég er búin að gefast upp á Facebook síðunni og hún á mér.  Kem ekki til með að halda henni við.  Á í eilífum vandræðum með að logga mig inn og síðan þekkir aldrei aftur leyniorðið.  Ég veit að árinni kennir illur ræðari og sjálfsagt er ég að gera eitthvað vitlaust.  Ég bara nenni ekki að setja mig inn í  hvar vitleysan liggur, ég eyði alveg nógum tíma á þessari síðu svo ég fari nú ekki að halda úti annari líka.

Bið að heilsa öllum.


2 HESTÖFL

Komiði sæl.

Ég bara varð að sýna ykkur þessa mynd sem að ég tók í morgun.  Nágranninn var að láta klippa trén hjá sér og garðyrkjumaðurinn var með þetta farartæki til að fjarlægja afklippurnar.  Alls ekki óalgeng sjón hér um slóðir. Kannski eitthvað sem Landinn ætti að hugsa út í þrengingunum. Afturhvarf til upprunalega hestaflsins.  Ágætis svar við mögulegum bensínskorti. 

DSC00592

Heyrumst.


Myndir frá sunnudeginum 12. Október.

Komiði sæl.

Svona leið sunnudagurinn okkar.  Vorum bara heima og kepptumst við að gera ekki neitt.

í sundlauginni.         Sá gamli í hengirúminu, sem var afmælisgjöfin

Sundlaugin góða.                       Sá gamli í nýja hengirúminu.

Þór að hvíla sig eftir steikina.       Hjóla

Þór liggur á meltingunni.             Hjólaþvottadagur. 

Heyrumst.

 

 


SITT LÍTIÐ AF HVERJU.

Komið þið sæl.

Það hefur verið mjög sérkennileg upplifun sl. viku að sitja hér og lesa um kröggur bankanna sem hafa farið illilega yfir strikið í erlendum lántökum til að fjármagna flottræflishátt sinn og annara, heima og heiman. T.d hefði Bjarni frændi alveg geta sagt þeim þetta fyrir mörgum árum, en kannski var bara þægilegra að sjá ekki neitt og heyra ekki neitt. Nota bara strútataktík á  þetta.  En nú er þetta búið og gert.

Öll heimspressan, skandinavísku, bresku, spænsku, suðuramerísku og  bandarísku (kannski hvað síst!) blöðin hafa öll flutt fréttir af þessu ástandi á Klakanum. Að  sitja HÉR í 34 stiga hita, þar sem ruslabíllinn hefur ekki komið í heila viku vegna skorts á dísel og horfa á grafíkin í CNN(espanol) sem sýna kúrfur íslensku bankanna og gengisvísitölunnar renna beint niður til Heljar (má ekki vera of orðljót!!) er bara hreinlega surreallísk upplifun. Nenni reyndar ekki að ræða þessi bankamál meira, það væri hreinlega að bera í bakkafullann lækinn.

Hef haft í nógu að snúast sl. viku fyrir utan það að leita að bensíni á bílinn sem eitt og sér er full vinna. þannig er málið með vexti að faðir svila míns liggur fyrir dauðanum, gerir það með sömu friðsæld og reisn og hann hefur lifað lífinu.  Er með endastig lungnfibrosu og hjá honum er full vinna að draga andann, getur varla talað og á í stökustu vandræðum með að borða.  Þarf hjálp við allar athafnir daglegs lífs.  Eiginkonan sér um ALLA umönnun en ég fer til hennar á morgnanna þegar krakkarnir eru í skólanum og reyni að hjálpa henni með það sem að til fellur.  Hann vill deyja heima og þar að auki er ekkert meira fyrir hann að gera.   Hjúkrunarheimili er ekki á meðal þeirra möguleika sem eru í boði og það þykir sjálfsagt að hver stórfjölskylda sjái um sín gamalmenni, allt annað er skömm og hneisa.  Þetta eru yndisleg fullorðin hjón og mér mikil ánægja að vera í návist þeirra.  Þau eru búin að vera gift í 55 ár og æðruleysið yfir aðstæðunum er fullkomið, friður og ró yfir öllu. Svo sér tengdadóttirin um innkaupin og einn sonurinn sefur hjá þeim á næturna.

Af búskapnum er allt meinhægt að frétta.  Búið af skrapa saman þeim dísellítrum  sem nauðsynlegir eru til að sá 60 hekturum af hrísgrjónum, meiningin er víst að pota þeim niður í næstu viku. Búið að kaupa 10 mjólkurkýr sem allar eru með kálfa.  Sem sé 20 beljur á beit sem vonandi eru ekki hrísgjónaætur.  Tæknin við að mjólka verður ekki upp á marga fiska til að byrja með, handaflið verður að duga þangað til hlutirnir er farnir að snúast.

Set inn hérna (vonandi!!) nokkrar myndir sem eru teknar í vikunni.

DSC00573DSC00567DSC00574

Heyrumst.

 


FYRIR BIRNU MÍNA.

Komið sæl.

Bara nákvæmlega ekkert í fréttum, hvunndagurinn alveg að drepa mann og hitinn líka. Kannski bara einhverskonar spennufall eftir allann æsinginn á fyrri vikum. Sem sagt, engar fréttir eru góður fréttir. 

2647396064_ac28463545_mÞessar myndir hér að neðan eru sérstaklega tileinkaðar Birnu systur minni sem er orðin svo leið á að sjá bara "hús og svoleiðis" á þessari síðu. Gettu nú bara hvað þetta er... enginn hús í mörg hundruð km. radíus og ekkert "svoleiðis" heldur.   Njóttu vel.

Uyuni saltaudnin

Þessar myndir eru stolnar af flickr síðunni hans Sigurjóns Guðjónssonar frænda míns,  ATH.. allur réttur áskilinn.

 

Heyrumst.   


HÁLFLEIKUR

Komiði sæl. 

Mér var afskaplega heitt í hamsi í síðustu færslu eins og kannski skein í gengum skrifin.  En þar sem ég vil ekki vera ekki eins og æsifréttamennirnir sem skrifa bara þegar þeir hafa frá einhverju krassandi að segja þá langar mig að segja ykkur að Göngunni sem var efni síðustu færslu hefur verið frestað. Búið er að gefa út tilkynningu um að henni verði frestað til 15. okt.

Verður líklega/vonandi leyst upp og fólk sent til síns heima enda uppskerutími hjá mörgum.  Þetta var skv. nokkuð áræðanlegum heimildum gert að skipun forsetans sjálfs, þess sama og hafði fyrir nokkrum dögum harðneitað að eiga nokkurn hlut að máli varðandi þessa Göngu. 

Ástæðan?  Uppi eru nokkrar kenningar þar að lútnandi.  Menn hafa trúlega umfram allt gert sér grein fyrir að þarna gæti ástandi farið endanlega út böndunum eins og gefur að skilja. Í annan stað voru  skipuleggjendur göngumanna að gera ráð fyrir stuðningi úr verkamannahverfum borgarinnar, sem þeir svo fengu ekki.  Verklýðsforkólfar á svæðinu, þvert á hugmyndir göngumanna, hvöttu fólk til að "verjast með kjafti og klóm" ef til gripdeilda kæmi.  

Chochis2

Öfgaaðstæður að þessu tagi væru líka afskaplega slæmar afspurnar, sérstaklega núna þegar Aðalþing SÞ er samankomið í NY. Þetta er nefninlega umfram allt sálfræðistríð.   En nú getur fólk semsagt andað léttar í bili og það eru að sjálfsögðu góðar fréttir.

Giovanni fór í  að heiman strax í morgun áleiðis í sveitina.  Ætlaði fyrst að þræða nokkrar nálægar bensínstöðvar til að reyna að finna disel.  Hann er með eina tunnu á pallinum  á Hi-Lux-num sem að hann nær stundum að fylla þó ekki sé nema í dropatali.  Krakkarnir komnir í skólann á ný og hlutirnir að komast í daglegt horf.

Heyrumst.


PÓSTHÓLF FYRIR MÖMMU MÍNA.

Komiði sæl. 

Það hefur lengi verið vandamál að koma til okkar pósti þar sem heimilsfangið hljómaði einhvern vegin svona (dálítið fært í stílinn en samt satt!):

Fjóla Björnsdóttir

Mauragötu 8,

6,5 km frá aðaltorginu beint í Norður. Bak við bensínstöð Alí gamla (sem reyndar er búin að selja hana stórri þjónustukeðja). Beygt til hægri við stóra mangótréð það sem trífætti hundurinn liggur þegar ekki rignir.

Santa Cruz, Bolivia.

Það liggur nú eiginlega í augum upp að pósturinn barst seint og illa.   Besta ráðið var að senda jólapakkana til tengdamömmu í La Paz (þar sem sumir hlutir eru þróaðri en hér, m.a. póstþjónusta) og biðja hana svo að koma pökkunum til okkar með DHL.

454705489_436d70ca4c_m

En nú hljómar adressan semsagt svona:

Fjóla Björnsdóttir

Casilla Postal 293

Correo Central.

Santa Cruz, Bolivia.

Mun einfaldara ekki satt.  Ég bind miklar vonir við þetta nýja Pósthólf nr. 293.  Og ég veit að það gerir elsku mamma mín líka.

Bið að heilsa.


MÁNUDAGUR TIL MÆÐU ??

Komiði sæl.

Af okkur er allt prýðilegt að frétta.  Fórum í hefð-bundinn sunnudagsbíltúr í dag sem þýðir náttúrlega að bensínið aftur orðið nokkuð aðgengilegt.  Keyptum okkur kjötbökur og fórum að bursla í einni af þessum ótal kristaltæru bergvatnsám sem eru hér bara nokkra km. fyrir utan borgina.  Gengum líka aðeins á gosbyrðirnar í geymslunni (80 lt. Munið þið?).  Þjáist því miður alltaf af minnisleysi þegar þarf að muna eftir myndavélinni, en það kemst kannski í lag þegar ég er búin að læra að koma myndunum af henni inn á vefinn. 

Af þessum blessuðu friðarviðræðum er ekki mikið að frétta heyrist mér,  eitthvað hefur þó miðað áfram og mér skilst að þeir sem þar eiga beinan hlut að máli ætli að gefa sér þessi viku í viðbót til að koma skikki á hlutinna. 

Hins vegar virðist það ekki ætla að stöðva róttækann arm stjórnarflokks Morales.  Ég heyrði nokkrar herskáar yfirlýsingar í aukafréttatíma í kvöld (venjulega eru engar fréttir á sunnudagskvöldum).  Þar sem staðhæft var að héraðstjórar "óþekku" fylkjana, þ.e.  Beni, Santa Cruz og Tarija hefðu greinilega engann áhuga á nokkrum sameiginlegum niðurstöðum.  Þess vegna ætla nokkrir hópar fólks sem eru vopnaðir bareflum og skotvopnum og eru staðsettir á 3 stöðum, norðan, sunnan og austan megin við borginna, samtals um 20 þús. manns segja þeir,  að marsera inn í borginna á morgunn og sýna tennurnar.   Þessar yfirlýsingar tekur fólk hér passlega alvarlega vegna þess að þetta eru mestallt málaliðar, fáfrótt og fátækt fólk sem er rekið áfram í hópum (eins og sauðir, því miður) og veit ekki betur.  Flestir meta það þannig að ef það verður ekki fyrir niðurlægingu eða ögrunum þá komi það til með að þreytast fljótt og halda sig til hlés.

2863943534_aa1072a84d

Það þarf ekki að taka það fram að allur kostnaður og skipulag varðandi þessar "félagslegu þrýstihópa", fæði, húsnæði, að koma fólki til og frá.... allt, allt er greitt beint úr ríkissjóði (hvaðan annarsstaðar??).  Og þetta að meðan hinar svokölluðu friðarviðræður fara fram.  Dæmið þið svo bara sjálf hver það er sem ekki vill sjá jákvæðar niðurstöður.   

Jæja við sjáum hvað setur, ég er satt að segja alveg róleg yfir þessi, finnst þetta svona merki um ákveðna örvæntingu.

P.S. Myndirnar hérna fyrir ofan eru frá markaði í Sucre, höfuðborg landsins.... NEI... La Paz er EKKI höfuðborg eins og margir halda, aðeins aðsetur þingsins.

Heyrumst.


ENGINN PÓLITÍK Í ÞESSARI.

Komiði sæl. 

Allt gott að frétta.  Enginn skóli og grislingarnir heima að horfa á DVD disk í augablikinu.  Erum að plana ferð í dýragarðinn eftir hádegi, eitthvað verður maður jú að hafa fyrir stafni.  Var ógurlega ánægð með nýju mynda- copy/paste kunnáttuna í gær en get samt ekki sent inn myndir af diskum sem ég á, bara af netinu.  Myndirnar á diskunum eru trúlega of þungar en ég get sett þær inn á myndaalbúmin hér til hliðar.

Hér koma nokkrar í viðbót. Frá San Javier og og San Rafael, nálægu þorpi. Þau eru bæði á heimsmynjaská Sameinuðu þjóðanna fyrir þessar einstöku kirkjur sem báðar voru byggðar rétt eftir 1690.

BoliviaSan_Xavier_1691_r 

 

BoliviaSan_Rafael_de_Velasco_1696r 

 

Scan10002 

 

Heyrumst.


ENGINN SKÓLI ÚT VIKUNA.

Komið þið sæl.

Þessi færsla verður afspyrnustutt, aðallega fyrir þær sakir að ég er búin að eyða öllu kvöldinu í að reyna að læra að setja myndir inn á þetta skrapatól  (...árinni kennir illur ræðari og svo framvegis). Þetta er nú samt allt að koma og í næstu færslum ætla ég að reyna að setja með myndir héðan frá þessu annars yndislega og gullfallega landi þaðan sem fréttirnar hafa verið mestmegnis neikvæðar upp á síðkastið.

En nú eiga friðarviðræðurnar semsagt að byrja á morgun í Cochabamba og þangað fóru allar hlutaðeigandi aðilar í dag. Þangað komu líka "alveg óvænt" eða þannig um 20 rútur (ca. 3.000 manns)  með stuðningsmönnum Morales sem voru upphaflega á leiðinni hingað til Santa Cruz til að gera allt vitlaus.  Þegar staðfest var í gær að fundað yrði í Cochabamba áætlun breytt og nú ætlar þetta fólk að hinkra þar amk. á morgun og þrýsta á "jákvæðar niðurstöður úr þessum hlutlausu viðræðum".  Það var haft eftir einhverjum manni í hópnum í sjónvarpinu að "fólk væri óvopnað... bara með með barefli"!!!.  Skyldu þau barefli vera ætluð til að stugga við flækingshundum..... ég bara spyr.  Svo þarf að sjálfsögðu ekkert að fjölyrða um Það að allar þessar rútur, gisting fyrir allt þetta fólk og vasapeningarnarnir sem það án efa fær, kemur beint úr vösum hins almenna skattgreiðenda.   NEI, þetta er ekki djók..... því miður. 

Krakkarnir eru enn í þessu krísufríi, sem trúlega varir fram yfir helgi.

En nú kemur hinsvega fyrsta myndin sem mér hefur lánast að setja inn.  Hún er frá San Javier, litlu þorpi um 180 km. héðan frá mér.

SanJavierCheese

Þar er mikið mjólkurframleiðsla en ekkert mjólkursamlag þannig að bændur gera ost úr meirihluta hluta mjólkurinnar og selja á misskipulagðan hátt. Eitt af mínum uppáhaldsvæðum.

Heyrumst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Fjóla Björnsdóttir

Höfundur

Fjóla Björnsdóttir
Fjóla Björnsdóttir

Fjóla Björnsdóttir. Læknir. Búsett í Bólivíu. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2011 Andrés og fótboltamót 040
  • 2011 Andrés og fótboltamót 041
  • 2011 Andrés og fótboltamót 031
  • 2011 Andrés og fótboltamót 029
  • 2011 Andrés og fótboltamót 020

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 25125

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband